Ópólitískur bæjarstjóri í Mosfellsbæ
22.5.2010 | 22:15
Aðskilnaður framkvæmdarvalds og valds kjörinna fulltrúa.
Nú er tími nýrra hugmynda og nýrrar nálgunar. Tími til að kveðja gamla Ísland. Ísland pólitískra fyrirgreiðslna, hagsmunapots og klíkuskapar.
Um átta ára skeið höfum við búið við pólitíska bæjarstjóra hér í Mosfellsbæ. Þetta fyrirkomulag hefur að mörgu leyti reynst illa. Pólitískur bæjarstjóri setur óhjákvæmilega mark sitt sem slíkur á daglega stjórnsýslu sem þó á að vera fagleg og jöfn gagnvart öllum þeim sem þjónustu hennar njóta. Stjórnsýslan á að vera fagleg og allar ákvarðanir hennar byggðar á jafnræði og meðalhófi og laus undan daglegum pólitískum áhrifum.
Breytinga er þörf! Framsóknarmenn hafa verið talsmenn þess að koma á aðskilnaði á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds á Alþingi Íslendinga. Á sama hátt erum við talsmenn þess að sami aðskilnaður verði á milli framkvæmdavalds og valds kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu þ.e. í stjórnsýslu Mosfellsbæjar.
Í meirhlutasamstarfi á árunum 1994-2002 var ópólitískur bæjarstjóri við góðan orðstír.
Ný hugsun.
Hver segir að það þurfi að vera til meirihluti og minnihluti! Ef ráðinn væri faglegur bæjarstjóri og ráðning hans byggð á gegnsæju ferli. Væri þá ekki í raun búið að taka fyrsta skrefið í verkaskiptingu framkvæmdavalds og kjörinna fulltrúa? Þar með væri kominn möguleiki á að bæjarfulltrúarnir hugsuðu út fyrir flokkslínur.
Það væri hægt að sjá fyrir sér að hugtökin minnihluti og meirihluti í bæjarstjórn hyrfu með tímanum og við tæki að ákvarðanir sem væru teknar samhljóða eða með meirihluta atkvæða þvert á flokkslínur þar sem gegnsæi og drenglyndi réði för hverju sinni. Að breyta um hugsun tekur tíma en þetta gæti verið fyrsta skrefið og fyrsta skrefið er jú alltaf það mikilvægasta.
Ráðning faglegs bæjarstjóra væri fyrsta skrefið. Í framtíðinni mætti sjá fyrir sér að framboðin hættu að mynda svokallaðan meirihluta og minnihluta og sammæltust um ráðningu bæjarstjóra. Um leið yrði hlutverk forseta, varaforseta og formanns bæjarráðs skilgreint sem hlutverk hinna kjörnu fulltrúa og þeim falið að koma fram út á við og annast hin pólitísku samskipti við kjósendur sína.
Athugasemdir
Er eitthvað nýtt við að ráða ópólitískan bæjarstjóra? Af hverju er ópólitískur betri en að ráða pólitískan? Er þetta ekki bara uppsláttur sem menn telja líklegan til vinsælda?
TómasHa, 22.5.2010 kl. 22:27
sæll
Eg tek undir hjá þér með meirihluta og minnihluta, þetta er vinnuskipulag sem er orðið úr sér gengið og er eitt af því sem verður að breytast. Í samfélagið eins og hér í Mosó eiga bæjarfulltrúar að vinna meira saman sem ein heild en ekki að skipa sér í andstæðar fylkingar.Þau mál sem á öllum brenna eru þess eðlis að þau ná út yfir öll flokka landamæri. Það er allveg hægt að hugsa sér að flokkarnir skipti hreinlega með sér málaflokkum og vinni út frá þeim punkti en geri sameiginlega fjárhagsáætlun yfir heildina. Ég tel að það sé kominn tími á breytingar hér í Mosfellsbæ og sá meirihluti sem hefur öllu ráðið þurfi að taka pokann sinn.
Haraldur A. Haraldsson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 11:24
Hjartanlega sammála þér Marteinn! Þetta leggur hornsteininn að betri stjórnsýslu og uppbyggingu samfélagsins að aðgreina á milli framkvæmdarvald og valds kjörinna fulltrúa þannig að bæjarstjórinn verði í reynd leiðtogi allra bæjarbúa en ekki á valdi ákveðinnar flokkslínu!
Kristbjörg Þórisdóttir, 23.5.2010 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.