Færsluflokkur: Heimspeki

Sveitarstjórnarmenn í Mosfellsbæ setja sér siðareglur.

Það er mikið ánægjuefni að um þessar mundir vinnur bæjarráð Mosfellsbæjar að því að semja siðareglur fyrir bæjarfulltrúa. Reglum þessum er ætlað að ná yfir kjörna fulltrúa svo og þá sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum í Mosfellsbæ.  Ekki svo að skilja að brýn þörf kalli á þó auðvitað megi benda á nokkur dæmi þar sem það hefði verið gott ef siðareglur hefðu verið til staðar.

Mikilvægt er að íbúarnir geti treyst því að þeir sem kallaðir eru til starfa á hverjum tíma fyrir bæjarfélagið gegni skyldum sínum innan ramma laga og í samræmi við það umboð sem kjósendur hafa veitt þeim.  Bæjarfulltrúar eiga að vera meðvitaðir um að þeir bera ábyrgð gagnvart íbúum í heild sinni, þ.m.t. gagnvart kjósendum sem kusu þá ekki.

            Almennt séð er ég þeirrar skoðunar að slíkar reglur veiti fyrst og fremst aðhald og minni menn á. Enda eru reglurnar almennt sjálfsagðar ef þær er skoðaðar. Til viðbótar siðarreglunum er jafnframt reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum bæjarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan bæjarstjórnar.

Siðareglur hafa verið til umræðu í nokkur ár einkum á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hefur Sambandið m.a. þýtt siðareglur Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins fyrir kjörna fulltrúa á sveitar- og héraðsstjórnarstigi auk þess að vera leiðandi í umræðunni.  
            Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í mars 2009 samþykkti þingið samhljóða eftirfarandi ályktun sem lögð var fyrir þingið.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga mælir með því að sveitarstjórnir setji sér siðareglur. Landsþingið samþykkir að á vegum sambandsins verði kynntar hugmyndir að fyrirmyndum að siðareglum sveitarstjórna. Landsþingið samþykkir að á vegum sambandsins verði hugað að því að setja á fót sameiginlega siðanefnd sveitarfélaga. Landsþingið samþykkir að unnið verði á vegum sambandsins að tillögum að nauðsynlegum lagabreytingum í þessum efnum.

Minna varð úr sameiginlegri vinnu á vegum Sambandsins í kjölfarið en búist hafði verið við en margir sveitarstjórnarmenn höfðu reiknað með því að Sambandið útbyggi ramma eða beinagrind að reglum sem síðan sveitafélögin um land allt gætu nýtt sér.  Fljótlega í kjölfar þingsins settu sveitarstjórnarmenn í Kópavogi og Reykjavík sér siðareglur.

            Í Mosfellsbæ hefur þetta verið í umræðunni síðan á þinginu í mars 2009 en nú hillir undir að bæjarstjórn samþykki siðareglur sem verið hafa í vinnslu hjá bæjarráði um nokkurt skeið. Reglurnar eru unnar að hluta til með hliðsjón af þeim reglum sem settar hafa verið í Reykjavík og Kópavogi.

            Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér. Jafnframt að upplýsa íbúa um hvaða hátterni þeir eigi rétt á af kjörnum fulltrúum. En samhliða virðingu fyrir umboði kjósenda eigi að vera virðing fyrir siðferðislegum gildum.

Birtist í morgunblaðinu 20.februar 2010


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband