Meirihlutinn hafnaði íbúalýðræði í tvígang!


Um kirkjubyggingu, íbúalýðræði, skipulagsmál,dómsmál og fleira.

 Það ótrúlega gerðist á bæjarstjórnarfundi í Mosfellsbæ miðvikudaginn 24.mars.sl. en þá hafnaði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í tvígang tillögu minnihlutans um íbúakosningu samhliða sveitarstjórnarkosningum þann 29.maí n.k..    Tillögurnar gengu út á að íbúar yrðu spurðir um staðsetningu kirkju og hvort kirkja og menningarhús ættu að vera sambyggð eða ekki. Þessi tvöfalda höfnun verður að teljast sérstaklega merkileg í ljósi þess að þessir sömu flokkar hafa reynt slá ryki í augu bæjarbúa með því að skreyta sig með íbúalýðræði þótt framkvæmd þess hafi þótt lítt sannfærandi til þessa. Með þessu verður það að teljast full sannað að íbúalýðræði er ekki ofarlega á forgangslista þessar flokka.


Það er ákaflega gleðilegt að safnaðarnefnd Lágafellssóknar skuli ráðgera kirkjubyggingu í Mosfellsbæ.  Óumdeild er þörfin fyrir kirkjubyggingu enda um langt liðið frá því að síðast var byggð kirkja í bæjarfélaginu.  Sennilega var byggð kirkja síðast þegar íbúar voru langt innan við 2000 en nú eru þeir um 8500.  Lágafellskirkja tekur sennilega innan við 200 manns í sæti og þá tekur Mosfellskirkja varla meira en 150 manns í sæti svo það er augljóst að þörfin er mikil í ört vaxandi bæjarfélagi.
 

Mikilvægt er að friður og sátt sé um byggingu jafn mikilvægs mannvirkis og kirkju í samfélaginu okkar.  Málið má ekki snúast upp í pólitískt moldviðri og því mikilvægt að íbúar fái að kjósa um staðsetninguna svo og hvort kirkjan eigi að vera samföst menningarhúsi bæjarins eða ekki enda slík vinnubrögð í anda íbúalýðræðis. 
 

Vinnubrögð meirihlutans eru umhugsunarverð
Undrun vekur að meirihlutinn skuli fella tillögu um íbúakosningu um staðsetningu kirkjunnar í Mosfellsbæ þótt engin skoðanakönnun hafi  farið fram um staðsetningu hennar.  Þó sóknarnefnd hafi verið sammála um staðsetninguna þá þýðir það ekki endilega að það sjónarmið endurspegli vilja íbúanna. Viðhorfskönnun sem gerð var vegna deiliskipulags miðbæjar sýndi að ekki voru allir á því að kirkjan ætti að vera staðsett þar.
 

Meirihlutinn hefur í raun vaðið fram í fullkominni blindu og með fordæmalausum yfirgangi, gefið sóknarnefnd loforð um staðsetningu kirkju og menningarhúss án samþykkis bæjarstjórnar á lóð sem sjálfstæður lögaðili er með leigusamning til margra ára.  Lögaðili þessi hafði óskað eftir að byggja þjónustu- og verslunarhúsnæði á lóðinni en var vart virtur svara. Mosfellsbær hefur í raun lagt þennan lóðarleiguhafa í einelti og tapað í þrígang málaferlum, fyrst hjá sýslumanninum í Reykjavík og síðan í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þinglýstra skuldabréfa og þá en á ný vegna útburðarmáls sem bærinn höfðaði en tapaði nú nýlega.  Af þessu má sjá að lóðirnar eru ekki í hendi og vandséð að þær verði það án uppkaupa. 
 

Það er ljóst að ef meirihlutasamstarfið í Mosfellsbæ byggðu á gildum bæjarfélagsins “Virðing, Jákvæðni, Framsækni, Umhyggja” þá væru þessi mál í öðrum farvegi.
Auðveldlega mætti sjá þau fyrir sér á eftirfarandi hátt :Virðing fyrir íbúalýðræði. Jákvæðni fyrir sjónarmiðum íbúanna. Framsækni fyrir uppbyggingu Mosfellsbæjar með hliðsjón af vilja íbúanna. Umhyggja fyrir umhverfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Matti. Ömmubróðir minn Guðmundur Magnússon Norðdahl bjó í Mosfellsseitinni á milli 1870 og1890. Ég á merkilega minningargrein um hann eftir systurson hans. Í minningargreininni er mikið fjallað um kirkjubyggingu og ef ég man það rétt þá voru ekki allir sammála þar.

Og svo segjum við Áfram Framsókn. Batnandi mönnum er best að lífa.

Með góðri kveðju til þín og þinna frá kalli og kellu á Herjólfsstöðum

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband