Getur Mosfellsbær tekið þína lóð bótalaust?

Hvað ef þú fengir bréf frá Mosfellsbæ þar sem segði: ” þar sem bærinn og kirkjan ætla að byggja hús á lóðinni þinni þá ætlum við að láta meta verðmæti hússins, en fyrir lóðina koma engar bætur”. Þætti þér þetta sanngjarnt eða réttlátt? Mosfellsbær gengur fram með þessum hætti gegn fyrirtæki á miðbæjarsvæðinu en hefur nú tapað máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Umræddur lóðarleiguhafi sem bærinn ræðst gegn hefur verið með rekstur á lóðunum í tugi ára og hugði á frekari uppbyggingu en byggingarleyfisumsókn hans, sem lögð var fram í samræmi við þágildandi deiliskipulag miðbæjar, var vart virt viðlits. 


Á bæjarstjórnarfundi þann 21. apríl sl. ákvað meirihluti bæjarstjórnar að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Í anda meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna lagði ég fram tillögu um að dregin yrði til baka kæra til Hæstaréttar á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. mars sl.

Í greinargerð með tillögunni sagði ég m.a.:” Í stað þess að halda kærunni til streitu, verði í anda góðrar stjórnsýslu sest niður með lóðarleiguhafanum og samkomulags leitað til lausnar sem báðir aðilar geti sætt sig við.
Minnt skal á að lóðarleiguhafinn hefur nú óskað eftir dómkvöddum matsmönnum til að meta mannvirki og lóðir. Í anda góðrar stjórnsýslu er réttlátt og sanngjarnt að koma ekki í veg fyrir að borgararnir fái gætt réttinda sinna til hins ýtrasta”.
 

Skemmst er frá því að segja að meirihluti bæjarstjórnar felldi tillöguna. Það þótti mér sorglegt enda hafði bæjarstjórn þar með hafnað þeirri grundvallarreglu í stjórnsýlunni að gæta meðalhófs þ.e. að aðgerðir séu ekki meira íþyngjandi en nauðsynlegt er gagnvart borgurunum, hvort heldur þeir eru einstaklingar eða fyrirtæki í bæjarfélaginu.

 Það er mjög mikilvægt að jafnræði sé haft milli lögaðila. Það er ekki er langt um liðið síðan seldur var hluti úr leigulandi bæjarins að Hulduhólum fyrir 148 milljónir króna og það meira að segja u.þ.b. ári áður en bæjarstjórn hafði heimilað uppskipti landsins. Bæjarráð Mosfellsbæjar kvað uppúr í nóvember sl. að þar hefði ekki verið staðið rétt að málum.


Það sem einum var gert kleift að selja á nú að taka af öðrum án nokkurra bóta.
Það er grundvallar regla í réttarsamfélagi nútímans að beita borgurum ekki misrétti eftir geðþótta og koma ekki í veg fyrir að borgararnir fái að neyta allra þeirra úrræða sem lög leyfa, áður en taka á af þeim réttindi þeirra sem varin eru af eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.Gamla Ísland gerði kannski mun á Jóni og séra Jóni.  Á sá tími ekki að vera liðinn ?  

......Það má vel vera að Hæstiréttur snúi við úrskurði Héraðsdóms..... en eftir sem áður situr það eftir að einn aðilli hefur verið beittur harðari tökum en annar.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband