Færsluflokkur: Bloggar

Áframhaldandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðismanna og Vinstri Grænna.

Vinstri Grænir til fóta í hjónasæng Sjálfstæðismanna.  

Það vekur athygli að í fréttatilkynningu sem kynningarfulltrú Mosfellsbæjar sendir út fyrir meirihluta Sjálfstæðismanna og Vinstri Grænna undir merkjum bæjarins er ráðist á nýliðana í bæjarstjórn Íbúahreyfinguna með dylgjum og aðdróttunum.  Meirihlutinn gerir Íbúahreyfinguna að blóraböggli fyrir því að ekki tókst að mynda breiða samstöðu í bæjarstjórn þar sem öll dýrin í skóginum áttu að vera vinir.

Eftir því sem ég hef fregnað þá var samstarfstilboðið afar einhliða og gekk í meginatriðum út á að framboðin ynnu saman að aðeins tveimur málum þ.e. móta lýðræðisstefnu og að fjárhagsáætlunargerð.  Í staðin áttu framboðin tvö S og M- listi að fá áheyrnafulltrúa í þeim nefndum sem þeir náðu ekki manni inn í.

Tilboðið bar lítinn vott um raunverulegan samvinnu. Raunverulegt tilboð hefði getað hljóðað uppá samstjórn allra flokka með hag íbúanna að leiðarljósi.  Í yfirlýsingur frá Íbúahreyfingunni segir m.a. “Íbúahreyfingin tók vel í þá hugmynd og lagði til á grundvelli hennar að mynduð yrði samstjórn allra framboða um rekstur bæjarins því fjárhagsáætlun væri grundvallarplagg hvað varðar stefnumörkun í rekstri sveitarfélagsins.  Næðist ekki samstaða um samstjórn lýsti Íbúahreyfingin sig engu að síður jákvæða gagnvart hugmyndum meirihlutans með ákveðnum breytingum.  Ekki var tekið vel í hugmyndir Íbúahreyfingarinnar af hálfu Sjálfstæðisflokksins og því strönduðu viðræður um samvinnu.”  

Sorgleg aðför Vinstri Grænna að lýðræðinu.

Það er í raun dapurlegt að sjá Vinstri Græna ætla að leggjast svo lágt að skríða uppí til fóta í hjónarúm Sjálfstæðismanna í stað þess að veita meirihlutanum málefnalegt aðhald í minnihluta eins og þeim ber siðferðisleg skylda til.  Með þessu samkrulli tryggja þeir meirihlutanum fjóra af fimm nefndarmönnum og hefta þar með lýðræðislega umræðu og eðlilega dreifingu nefndarsæta til minnihlutans. 

Íbúum ætti því að vera ljóst í næstu kosningum að atkvæði greitt VG er í raun atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum.


Ópólitískur bæjarstjóri í Mosfellsbæ


Aðskilnaður framkvæmdarvalds og valds kjörinna fulltrúa.

 

Nú er tími nýrra hugmynda og nýrrar nálgunar. Tími til að kveðja gamla Ísland. Ísland pólitískra fyrirgreiðslna, hagsmunapots og klíkuskapar.
Um átta ára skeið höfum við búið við pólitíska bæjarstjóra hér í Mosfellsbæ. Þetta fyrirkomulag hefur að mörgu leyti reynst illa. Pólitískur bæjarstjóri setur óhjákvæmilega mark sitt sem slíkur á daglega stjórnsýslu sem þó á að vera fagleg og jöfn gagnvart öllum þeim sem þjónustu hennar njóta. Stjórnsýslan á að vera fagleg og allar ákvarðanir hennar byggðar á jafnræði og meðalhófi og laus undan daglegum pólitískum áhrifum. 

Breytinga er þörf!  Framsóknarmenn hafa verið talsmenn þess að koma á aðskilnaði á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds á Alþingi Íslendinga. Á sama hátt erum við talsmenn þess að sami aðskilnaður verði á milli framkvæmdavalds og valds kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu þ.e. í stjórnsýslu Mosfellsbæjar.

Í meirhlutasamstarfi á árunum 1994-2002 var ópólitískur bæjarstjóri við góðan orðstír.  

 

Ný hugsun.

Hver segir að það þurfi að vera til meirihluti og minnihluti! Ef ráðinn væri faglegur bæjarstjóri og ráðning hans byggð á gegnsæju ferli. Væri þá ekki í raun búið að taka fyrsta skrefið í verkaskiptingu framkvæmdavalds og kjörinna fulltrúa?  Þar með væri kominn möguleiki á að bæjarfulltrúarnir hugsuðu út fyrir flokkslínur.
Það væri hægt að sjá fyrir sér að hugtökin minnihluti og meirihluti í bæjarstjórn hyrfu með tímanum og við tæki að ákvarðanir sem væru teknar samhljóða eða með meirihluta atkvæða þvert á flokkslínur þar sem gegnsæi og drenglyndi réði för hverju sinni.  Að breyta um hugsun tekur tíma en þetta gæti verið fyrsta skrefið og fyrsta skrefið er jú alltaf það mikilvægasta.

 

Ráðning faglegs bæjarstjóra væri fyrsta skrefið. Í framtíðinni mætti sjá fyrir sér að framboðin hættu að mynda svokallaðan meirihluta og minnihluta og sammæltust um ráðningu bæjarstjóra. Um leið yrði hlutverk forseta, varaforseta og formanns bæjarráðs skilgreint sem hlutverk hinna kjörnu fulltrúa og þeim falið að koma fram út á við og annast hin pólitísku samskipti við kjósendur sína.


Skömm okkar er mikil.

Hæstiréttur dæmdi Kaupfélagi Kjalarnesþings í vil sl. föstudag vegna tilraunar Mosfellsbæjar til útburðar af leigulóðum þess fyrrnefnda. Það er alltaf fagnaðarefni þegar réttlætið hefur sigrað. Þó má segja að ég skammast mín fyrir það að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi farið svona fram gegn lögaðila í bæjarfélaginu sem á sér rúmlega 50 ára sögu atvinnurekstrar.

Forsagan er deila hlutaðeigandi vegna lóða í miðbæ bæjarins en Mosfellsbær ætlaði að taka lóðir lögaðilans án bóta og ganga þannig í raun gegn stjórnarskrá vörðum eignarrétti.

 Þetta er fjórða skiptið sem bærinn tapar í máli þessu gegn Kaupfélaginu. Fyrst tapaði Mosfellsbær einhliða riftun lóðarleigusamnings sem hafnað var af Sýslumanni,  síðan staðfesti Héraðsdómur höfnun Sýslumanns, þá fór Mosfellsbær í útburðarmál fyrir Héraðsdómi sem tapaðist og nú síðast tapaði Mosfellsbær málinu fyrir Hæstarétti.

Undirritaður reyndi að telja bæjarstjórn hughvarf með tillögu um að draga ákvörðun bæjarráðs um áfrýjun til baka en meirihluti bæjarstjórnar felldi tillöguna á 534 fundi sínum þann 21.apríl sl.

Hugmynd meirihlutans um að reisa kirkju og menningarhús í uppnámi.
Ég velti því fyrir mér hvort nokkur staðar á byggðu bóli hafi veri staðið að verki eins og í Mosfellsbæ. 
Fyrst er skrifað undir viljayfirlýsingu milli sóknarnefndar og Mosfellsbæjar, þá er farið í verðlaunasamkeppni um byggingu kirkju og menningarhús og í það eytt 8 milljónum í verðlaunafé. Svo ekki sé talað um lögfræðikostnaðinn en hann hlýtur að vera þó nokkrar milljónir í það heila. Hefði ekki verð betra að tryggja lóðina áður en farið var í verðlaunasamkeppni sem sniðin var að lóðinni! 


 

Það er engin deila um það að samfélaginu vantar kirkju og verð ég fyrsti maður til að leggja byggingunni lið.
Ég minni á að við eigum marga fallega staði fyrir kirkju í Mosfellsbæ, margir hafa nefnt lóðina þar sem Bæjarleikhúsið er í dag, en frá upphafi höfum við B-lista bent á þennan fallega stað í jaðri miðbæjarins..
Þá er má líka rifja það upp að bæjarstjórn hafnaði tillögu um að bæjarbúar fengju að kjósa um staðsetningu kirkju.

Nú vona ég að við sjáum sóma okkar í að semja við lóðarleiguhafann og vanda vinnubrögðin í framtíðinni.


Getur Mosfellsbær tekið þína lóð bótalaust?

Hvað ef þú fengir bréf frá Mosfellsbæ þar sem segði: ” þar sem bærinn og kirkjan ætla að byggja hús á lóðinni þinni þá ætlum við að láta meta verðmæti hússins, en fyrir lóðina koma engar bætur”. Þætti þér þetta sanngjarnt eða réttlátt? Mosfellsbær gengur fram með þessum hætti gegn fyrirtæki á miðbæjarsvæðinu en hefur nú tapað máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Umræddur lóðarleiguhafi sem bærinn ræðst gegn hefur verið með rekstur á lóðunum í tugi ára og hugði á frekari uppbyggingu en byggingarleyfisumsókn hans, sem lögð var fram í samræmi við þágildandi deiliskipulag miðbæjar, var vart virt viðlits. 


Á bæjarstjórnarfundi þann 21. apríl sl. ákvað meirihluti bæjarstjórnar að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Í anda meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna lagði ég fram tillögu um að dregin yrði til baka kæra til Hæstaréttar á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. mars sl.

Í greinargerð með tillögunni sagði ég m.a.:” Í stað þess að halda kærunni til streitu, verði í anda góðrar stjórnsýslu sest niður með lóðarleiguhafanum og samkomulags leitað til lausnar sem báðir aðilar geti sætt sig við.
Minnt skal á að lóðarleiguhafinn hefur nú óskað eftir dómkvöddum matsmönnum til að meta mannvirki og lóðir. Í anda góðrar stjórnsýslu er réttlátt og sanngjarnt að koma ekki í veg fyrir að borgararnir fái gætt réttinda sinna til hins ýtrasta”.
 

Skemmst er frá því að segja að meirihluti bæjarstjórnar felldi tillöguna. Það þótti mér sorglegt enda hafði bæjarstjórn þar með hafnað þeirri grundvallarreglu í stjórnsýlunni að gæta meðalhófs þ.e. að aðgerðir séu ekki meira íþyngjandi en nauðsynlegt er gagnvart borgurunum, hvort heldur þeir eru einstaklingar eða fyrirtæki í bæjarfélaginu.

 Það er mjög mikilvægt að jafnræði sé haft milli lögaðila. Það er ekki er langt um liðið síðan seldur var hluti úr leigulandi bæjarins að Hulduhólum fyrir 148 milljónir króna og það meira að segja u.þ.b. ári áður en bæjarstjórn hafði heimilað uppskipti landsins. Bæjarráð Mosfellsbæjar kvað uppúr í nóvember sl. að þar hefði ekki verið staðið rétt að málum.


Það sem einum var gert kleift að selja á nú að taka af öðrum án nokkurra bóta.
Það er grundvallar regla í réttarsamfélagi nútímans að beita borgurum ekki misrétti eftir geðþótta og koma ekki í veg fyrir að borgararnir fái að neyta allra þeirra úrræða sem lög leyfa, áður en taka á af þeim réttindi þeirra sem varin eru af eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.Gamla Ísland gerði kannski mun á Jóni og séra Jóni.  Á sá tími ekki að vera liðinn ?  

......Það má vel vera að Hæstiréttur snúi við úrskurði Héraðsdóms..... en eftir sem áður situr það eftir að einn aðilli hefur verið beittur harðari tökum en annar.....


Meirihlutinn hafnaði íbúalýðræði í tvígang!


Um kirkjubyggingu, íbúalýðræði, skipulagsmál,dómsmál og fleira.

 Það ótrúlega gerðist á bæjarstjórnarfundi í Mosfellsbæ miðvikudaginn 24.mars.sl. en þá hafnaði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í tvígang tillögu minnihlutans um íbúakosningu samhliða sveitarstjórnarkosningum þann 29.maí n.k..    Tillögurnar gengu út á að íbúar yrðu spurðir um staðsetningu kirkju og hvort kirkja og menningarhús ættu að vera sambyggð eða ekki. Þessi tvöfalda höfnun verður að teljast sérstaklega merkileg í ljósi þess að þessir sömu flokkar hafa reynt slá ryki í augu bæjarbúa með því að skreyta sig með íbúalýðræði þótt framkvæmd þess hafi þótt lítt sannfærandi til þessa. Með þessu verður það að teljast full sannað að íbúalýðræði er ekki ofarlega á forgangslista þessar flokka.


Það er ákaflega gleðilegt að safnaðarnefnd Lágafellssóknar skuli ráðgera kirkjubyggingu í Mosfellsbæ.  Óumdeild er þörfin fyrir kirkjubyggingu enda um langt liðið frá því að síðast var byggð kirkja í bæjarfélaginu.  Sennilega var byggð kirkja síðast þegar íbúar voru langt innan við 2000 en nú eru þeir um 8500.  Lágafellskirkja tekur sennilega innan við 200 manns í sæti og þá tekur Mosfellskirkja varla meira en 150 manns í sæti svo það er augljóst að þörfin er mikil í ört vaxandi bæjarfélagi.
 

Mikilvægt er að friður og sátt sé um byggingu jafn mikilvægs mannvirkis og kirkju í samfélaginu okkar.  Málið má ekki snúast upp í pólitískt moldviðri og því mikilvægt að íbúar fái að kjósa um staðsetninguna svo og hvort kirkjan eigi að vera samföst menningarhúsi bæjarins eða ekki enda slík vinnubrögð í anda íbúalýðræðis. 
 

Vinnubrögð meirihlutans eru umhugsunarverð
Undrun vekur að meirihlutinn skuli fella tillögu um íbúakosningu um staðsetningu kirkjunnar í Mosfellsbæ þótt engin skoðanakönnun hafi  farið fram um staðsetningu hennar.  Þó sóknarnefnd hafi verið sammála um staðsetninguna þá þýðir það ekki endilega að það sjónarmið endurspegli vilja íbúanna. Viðhorfskönnun sem gerð var vegna deiliskipulags miðbæjar sýndi að ekki voru allir á því að kirkjan ætti að vera staðsett þar.
 

Meirihlutinn hefur í raun vaðið fram í fullkominni blindu og með fordæmalausum yfirgangi, gefið sóknarnefnd loforð um staðsetningu kirkju og menningarhúss án samþykkis bæjarstjórnar á lóð sem sjálfstæður lögaðili er með leigusamning til margra ára.  Lögaðili þessi hafði óskað eftir að byggja þjónustu- og verslunarhúsnæði á lóðinni en var vart virtur svara. Mosfellsbær hefur í raun lagt þennan lóðarleiguhafa í einelti og tapað í þrígang málaferlum, fyrst hjá sýslumanninum í Reykjavík og síðan í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þinglýstra skuldabréfa og þá en á ný vegna útburðarmáls sem bærinn höfðaði en tapaði nú nýlega.  Af þessu má sjá að lóðirnar eru ekki í hendi og vandséð að þær verði það án uppkaupa. 
 

Það er ljóst að ef meirihlutasamstarfið í Mosfellsbæ byggðu á gildum bæjarfélagsins “Virðing, Jákvæðni, Framsækni, Umhyggja” þá væru þessi mál í öðrum farvegi.
Auðveldlega mætti sjá þau fyrir sér á eftirfarandi hátt :Virðing fyrir íbúalýðræði. Jákvæðni fyrir sjónarmiðum íbúanna. Framsækni fyrir uppbyggingu Mosfellsbæjar með hliðsjón af vilja íbúanna. Umhyggja fyrir umhverfinu.


Er framtíðarsýn meirihlutans tálsýn ein?

Réttara og gagnsærra hefði verið að setja fram þriggja ára áætlunina án byggingarréttar og fagna því frekar ef úr rættist.

Þann 10. febrúar síðastliðinn var þriggja ára áætlun Mosfellsbæjar til umfjöllunar í bæjarstjórn. Ein af megin forsendum þriggja ára áætlunar sveitarfélaga er spá um íbúaþróun og nýbyggingar auk áætlunar um rekstur, framkvæmdir og fjármál bæjarfélagsins. Þannig er þriggja ára áætlunin í raun framtíðarsýn meirihlutans til næstu þriggja ára.Í áætluninni tel ég gæta óhóflegrar bjartsýnihjá meirihlutanum og þessa liði talsvert ofmetna og því áætlunin tálsýn ein.

Í spá um íbúaþróun og nýbyggingar gætir einnig fullmikillar bjartsýni hjá meirihlutanum. Því má reikna með að einstaka liðir áætlunarinnar s.s. eins og tekjuliðir séu þar af leiðandi ofáætlaðir ogþví allt eins víst að um frávik verði frá áætlaðri rekstarniðurstöðu þegar upp verður staðið.

Við umræðu þriggja ára áætlunar fyrir ári síðan gerði ég athugasemd við áætlaða sölu byggingarréttar m.a. fyrir árið 2010. Áætlaði meirihlutinn þá 125 milljónir í sölu byggingarréttar en sami meirihluti taldi rétt að taka hann út nokkrum mánuðum síðar við gerð fjárhagsáætlunar 2010.
Enn á ný er sala byggingarréttar sett inn í áætlun sveitarfélagsins 100 milljónir fyrir 2011, 150 milljónir fyrir 2012 og 200 milljónir fyrir 2013. Þrátt fyrir að fátt bendi til þess að eftirspurn sé að aukast á byggingarmarkaði. Þetta sést best á niðurstöðum fundar um þessi mál á vegum VFÍ/TFÍ í lok árs 2009. Því má segja að þriggja ára áætlunin sé fegruð um 450 milljónir með því að setja inn sölu á byggingarrétti. Réttara og gagnsærra hefði verið að setja fram áætlunina án byggingarréttar og fagna því frekar ef úr rættist.

Rekstarniðurstaða áætlunarinnar
án byggingarréttar er 22 milljónir 2011 +39 milljónir 2012 og +110 milljónir 2013 ef hinsvegar er reiknað með að minni fjölgun íbúa lítur dæmið mun verr út. Áætlunin er því lítið meira en þriggja ára loforð um tekjur sem ekki eru miklar líkur á að eigi eftir að skila sér í bæjarsjóð.

Mikilvægt er að meirihlutinn hverju sinni leggi fram trúverðug gögn sem eru yfir gagnrýni hafin en líkja má sölu byggingarréttar í áætlunum við núverandi aðstæður saman við spákaupmennsku þá sem viðgekkst fram að hruni. Þá má geta þess að drög að aðalskipulagi sem skipulags og byggingarnefnd Mosfellsbæjar vinnur nú að gera vart ráð fyrir jafn mikilli uppbyggingu í sínum spám nema ef litið er til efri marka í mannfjöldaspár næstu 7-9 árin. Ennfremur má benda á að nýleg mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir fækkun á árunum 2009-11 en hægari fjölgun eftir það en gert var ráð fyrir í fyrri spám stofnunarinnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband